Eva H. Önnudóttir í fréttum Bylgjunnar

Tekið var stutt viðtal við Eva H. Önnudóttir í fréttum Bylgjunnar um niðurstöður greinar hennar og Ólafs Þ. Harðarsonar sem birtist í sérhefti um Vald og Lýðræði.

Greinina sem kallast á íslensku, Pólitískir klofningsásar, tengsl kjósenda og stjórnmálaflokka og áhrif félags- og efnahagslegrar stöðu á kosningahegðun á Íslandi frá 1983 til 2016/17 má finna á vefsíðu tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla.

Viðtalið við Evu má heyra hér

 

Guðbjörg Linda í viðtali við Lestina á Rás1

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir ræddi við Lestina á Rás1 um niðurstöður greinar sinnar og Þorgerðar Einarsdóttur og Thamar M. Heijstra sem var birt í sérheftinu um vald og lýðræði núna í lok maí.

Grein þeirra sem kallast á íslensku, Pólitík margbreytileikans: Félagslegt og pólitískt aðgengi innflytjenda á Íslandi, má finna hér

Viðtalið við Guðbjörgu Lindu hefst þegar 18:50 mínútur eru liðnar.

Umfjöllun um grein Valgerðar Jóhannsdóttur og Jón Gunnar Ólafsson

Vefútgáfa Morgunblaðsins hefur birt viðtal við Valgerði Jóhannsdóttur sem tekið var um helgina. Þar fer Valgerður yfir efnistök greinar sinnar og Jóns Gunnars Ólafssonar sem ber heitið Íslensk­ir fréttamiðlar á tím­um umróts og breyt­inga eða „the Icelandic news media in times of crisis and change“. Viðtal mbl við Valgerði má finna hér og grein þeirra Valgerðar og Jóns Gunnars er á vef tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla.

Valds- og lýðræðisrannsókn fer senn að ljúka

Valds- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs hefur staðið yfir undanfarin fjögur ár. Fjöldi greina tengdar rannsóknarverkefninu hafa nú þegar verið birtar.

Nú sér fyrir lokin á rannsóknarverkefninu. Í tilefni þess mun tímaritið Stjórnmál & stjórnsýsla gefa út sérhefti á vormánuðum með niðurstöðum úr ákveðnum þáttum verkefnisins. Höfundar greinanna í sérheftinu tóku þátt í vinnustofu 13. október síðastliðinn þar sem þeir gerðu grein fyrir stöðu rannsókna sinna og kynntu drög að greinum sínum.

Guðmundur Heiðar, Gunnar Helgi, Baldur og Eva Marín

Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri  var fundarstjóri á vinnustofunni, en hann er einnig ritstjóri sérheftisins. Eftirtalnir höfundar kynntu drög að greinum sínum á vinnustofunni:

  • Gunnar Helgi Kristinsson: The Icelandic Power Structure Revisited.
  • Baldur Þórhallsson: A Small State in World Politics: Iceland‘s search for shelter.
  • Þorgerður Einarsdóttir, Thamar M. Heijstra og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Thamar og Guðbjörg Linda kynntu grein þeirra: The politics of diversity: Social and political integration of immigrants in Iceland.
  • Gunnar Helgi Kristinsson og Indriði H. Indriðason, Gunnar Helgi kynnti grein þeirra: The role of parliament under ministerial government.
  • Stefanía Óskarsdóttir: Societal Corporatism in Iceland: How does Iceland compare to Scandinavia?
  • Vilhjálmur Árnason: Icelandic Democracy in a Theoretical Perspective.
  • Eva Heiða Önnudóttir og Ólafur Þ. Harðarson: The Icelandic Voter: A Long Term View.
  • Hulda Þórisdóttir: (Potential for populism in Iceland?)
  • Sjöfn Vilhelmsdóttir og Gunnar Helgi Kristinsson: Political Trust: Performance or Politics?
  • Eva Marín Hlynsdóttir: Autonomy or integration: Analysis of the debate of the purpose of Icelandic local self-government

Valds- og lýðræðisrannsóknin í fjölmiðlum í desember 2016

Í 2. tölublaði 12. árgangs veftímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla, sem út kom 19. desember 2016, birtust nokkrar greinar sem unnar voru í tengslum við rannsóknarverkefni Valds- og lýðræðisrannsóknarinnar. Í tilefni útgáfunnar hélt Eva Heiða Önnudóttir, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild, erindi þar sem hún kynnti grein sína „The ‘Pots and Pans’ protests and requirements for responsiveness of the authorities“.  Greinin fjallar um undir hvaða kringumstæðum það er réttlætanlegt að stjórnvöld taki tillit til krafna mótmælenda, og hvort að þær kringumstæður eigi við um Búsáhaldabyltinguna. Sama dag mætti hún einnig í Samfélagið á Rás 1 til að ræða þetta efni.

Hér má hlusta á viðtalið við Evu Heiðu í Sarpinum hjá RÚV, en það hefst eftir að 30 mínútur eru liðnar af þættinum.

Sigurður G. Hafstað og Jóhanna Gunnlaugsdóttir áttu í sama hefti tímaritsins greinina „Hagnýting persónuupplýsinga á Facebook hjá eftirlitsstofnunum“. Fjallað var um greinina og viðtal tekið við Sigurð í Speglinum hjá RÚV þann 21. desember.

Hér má hlusta á Spegilinn í Sarpi RÚV. Umfjöllunin og viðtalið við Sigurð hefst um mínútu 17:22 og smella má á klippu umfjöllunarinnar í yfirliti þáttarins.

Hér er síðan frétt um sama efni sem birtist á vef RÚV.

Málstofa 3. maí 2016

Valds- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs

Málstofa

3. maí 2016, kl. 16:00 – 17:30, í stofu 206 í Odda

 Dagskrá

    1. Gunnar Helgi Kristinsson, rannsóknarstjóri, gerir grein fyrir stöðu Valds og lýðræðisverkefnisins.
    2. Þórólfur Matthíasson, prófessor, kynnir rannsókn sína:  Samþjöppun og dreifing kvóta og uppblásnir efnahagsreikningar .
    3. Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor, kynnir rannsókn sína: Ástæður miður góðrar upplýsingagjafar stjórnvalda: Skoðanir almennings og sérfræðinga (vinnutitill).
    4. Umræður.

Að lokninni dagskrá verður boðið upp á léttar veitingar.

Frekari upplýsingar hjá Sjöfn: 698 9683/525 5454 og sjofn@hi.is

Málstofa 17. febrúar

Málstofa Valds- og lýðræðisrannsóknar

17. febrúar 2016, kl. 16:00 – 18:00 í stofu 101 í Árnagarði

Dagskrá

  1. Gunnar Helgi Kristinsson, rannsóknarstjóri, gerir grein fyrir stöðu Valds og lýðræðisverkefnisins.
  2. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, prófessor, kynnir rannsókn sína: Samanburður á lýðræðisþróun í tveimur eyríkujm í Atlantshafi: Kapverdísku eyjunum og Íslandi.
  3. Helgi Eiríkur Eyjólfsson, nemi í MA námi í aðferðafræði, kynnir: Hamingja og félagsleg tengsl hægri- og vinstrisinnaðra í Evrópu. Kynningin byggir á greinardrögum eftir Helga Eirík Eyjólfsson, Stefán Hrafn Jónsson, Evu Heiðu Önnudóttur og Huldu Þórisdóttur.
  4. Umræður.

Að lokninni dagskrá verður boðið upp á léttar veitingar.

Nánari upplýsingar hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála  í síma 525 5454 eða sjofn@hi.is

Spilling á Íslandi

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á hádegisfundi 15. janúar 2016 sem skipulagður var af Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félagi stjórnmálafræðinga. Fundurinn bar heitið „Spilling á Íslandi: Hagsmunaárekstrar, fyrirgreiðsla og spilling“.  Á fundinum töluðu Gunnar Helgi og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, um spillingu á Íslandi og meðal annars velta upp spurningum um hvað felst í spillingu og hvað við vitum um spillingu á Íslandi. Erindi Gunnars Helga bar titillinn „Hvað vitum við um spillingu á Íslandi“ og erindi Þórunnar ber yfirskriftina „Hreinar línur?“. Erindi Gunnars Helga er byggt á rannsókn hans um viðhorf til spillingar á Íslandi sem er hluti af rannsóknarverkefninu Vald og lýðræði.

Fjallað var um rannsóknina í kvöldfréttum Rúv 15. janúar 2016.  Fréttin hefst 13.40.

Umfjöllun Vísis um fundinn 15. janúar 2016.

Need for security and system fairness on the political extremes

Hulda Þórisdóttir og Eva Heiða Önnudóttir birtu grein sína “Need for security and system fairness on the political extremes” í hausthefti 11. árgangs tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla sem kom út 17 desember sl.. Rannsókn Huldu og Evu Heiðu er hluti af Valds- og lýðræðisrannsókninni, þverfræðilegu rannsóknarverkefni innan Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands þar sem athyglinni er beint að megingerendum í valds- og lýðræðiskerfum íslensks samfélags.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að íslenskir kjósendur sem hafa allháa öryggisþörf og staðsetja sig lengst til vinstri og hægri í pólitík eru líklegri heldur en aðrir til þess að telja stjórnmálakerfið sanngjarnt.  Í rannsókninni, sem byggist á íslenskum gögnum úr European Social Survey, er metið hvort fólk á öndverðum meiði í pólitík deili þessum tilteknu sálfræðilegu þáttum. „Niðurstöðurnar sýna að íslenskir kjósendur sem hafa allháa öryggisþörf og staðsetja sig lengst til vinstri og hægri í pólitík eru líklegri til þess að telja stjórnmálakerfið sanngjarnt heldur en aðrir. Raunar var einnig nauðsynlegt skilyrði að þessir kjósendur væru ekki afhuga kerfinu með öllu, t.d. anarkistar, heldur hefðu lágmarks pólitískt traust,“ útskýrir Hulda í samtali við hi.is. Hún bætir við að ástæðan sé rakin til þess að fólk á pólitísku jöðrunum hafi að jafnaði meiri þörf fyrir öryggi en aðrir og af þeim sökum hafi það jafnvel enn sterkari sálfræðilegan hvata en ella til þess að sjá sanngirni í kerfinu.

Hér má sjá umfjöllun fjölmiðla og annarra um rannsókn Huldu Þórisdóttur og Evu Heiðu Önnudóttur:

http://www.hi.is/frettir/andstaedingar_sammala_um_sanngirni_stjornmalakerfisins

http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/hulda-thorisdottir-og-ottapolitik

Heimild texta:

http://www.hi.is/frettir/andstaedingar_sammala_um_sanngirni_stjornmalakerfisins

Gæslumaður Alþingis: Breytt valdastaða forseta Íslands

Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild HÍ og Stefaníu Óskarsdóttur, dósents við Stjórnmálafræðideild birtu grein sína um stjórnskipulega stöðu forseta Íslands í hausthefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla (2. tbl. 11. árg) og ber yfirskriftina: “Gæslumaður Alþingis: Breytt valdastaða forseta Íslands”.Rannsókn Bjargar og Stefaníu á stjórnskipulegri stöðu forsetaembættisins er hluti af Valds- og lýðræðisrannsóknarverkefni Félagsvísindasviðs HÍ (2014-2017).

Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild HÍ, ræddi um grein hennar og Stefaníu Óskarsdóttur, dósents við Stjórnmálafræðideild, um stjórnskipulega stöðu forseta Íslands í Speglinum á RÚV 17. desember 2015.