Valds- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs er rannsóknarverkefni til fimm ára (2014-2018) og hefur það verið styrkt m.a. af Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Í rannsókninni er athyglinni beint að megingerendum í valds- og lýðræðiskerfum íslensks samfélags svo sem að löggjafanum, framkvæmdavaldinu, stjórnsýslunni, stjórnmálaflokkum, hagsmunasamtökum, fjölmiðlum og almenningi. Valds- og lýðræðisrannsóknir hafa verið framkvæmdar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og taka efnisþættir íslensku rannsóknarinnar að einhverju leiti mið af norrænu rannsóknunum, en einnig er tekið tillit til sérstakra aðstæðna á Íslandi og ekki síst áhrifa hrunsins árið 2008.

Í valds- og lýðræðisrannsókninni er áherslan á empírískar rannsóknir og gagnaöflun, en einnig er lagt uppúr samstarfi fræðimanna og aðkomu sem flestra fræðigreina félagsvísinda. Þótt fjárveiting háskólans til verkefnisins hafi verið rausnarleg nægði hún þó ekki til að koma á legg heildstæðu og samhæfðu rannsóknarverkefni sem byggði á fyrirfram gefinni kortlagningu rannsóknarþarfa. Þess í stað var ákveðið að skilgreina sjö megin rannsóknaráherslur og að byggja verkefnið á þeirri rannsóknargetu og aðstöðu sem fyrir var við Félagsvísindasvið, og þannig styðja við rannsóknir sem varða vald og lýðræði með einum eða öðrum hætti. Rannsóknaverkefni þátttakendana taka því mið af rannsóknaráherslunum sjö sem eru: Margbreytileiki og þegnréttur; stjórnmálaflokkar og þátttaka; lýðræðishugmyndir Íslendinga; upplýsingamiðlun og fjölmiðlar; traust á opinberum aðilum; áhrifahópar í íslensku samfélagi; stjórnskipun, stefnumótun og ákvörðunartaka.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, er rannsóknarstjóri verkefnisins og með honum starfaði fimm manna verkefnisstjórn, en Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála sér um utanumhald verkefnisins. Um 30 fræðimenn og nemendur úr ólíkum deildum Félagsvísindasviðs hafa tekið þátt í því rannsókninni, en einnig hafa fræðimenn úr heimspekideild HÍ og við erlenda háskóla komið að henni.

Rannsóknarniðurstöður verkefnisins hafa verið birtar bæði í innlendum og erlendum tímaritum, sem og í bókaköflum og verið kynntar í ráðstefnuritum.  Má sérstaklega nefna sérhefti tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla um vald og lýðræði á Ísland sem kom í vefútgáfu í maí 2018 á www.irpa.is. Í sérhefinu er að finna tíu ritrýndar greinar á ensku sem allar taka á þáttum sem snerta vald og lýðræði í íslensku samfélagi. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, var sérstakur gestaritstjóri sérheftisins. Allar birtingar sem tengjast Valds- og lýðræðisrannsókninni er hægt að finna hér á vefsíðu rannsóknarverkefnisins (sjá á forsíðu).