Um verkefnið

Valds- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs er rannsóknarverkefni til fjögra ára (2014-2017) og    hefur það verið styrkt m.a. af Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands. Í rannsókninni er athyglinni beint að megingerendum í valds- og lýðræðiskerfum íslensks samfélags svo sem að löggjafanum, framkvæmdavaldinu, stjórnsýslunni, stjórnmálaflokkum, hagsmunasamtökum, fjölmiðlum og almenningi. Valds- og lýðræðisrannsóknir hafa verið framkvæmdar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og taka efnisþættir íslensku rannsóknarinnar að einhverju leiti mið af norrænu rannsóknunum, en einnig er tekið tillit til sérstakra aðstæðna á Íslandi og ekki síst áhrifa hrunsins árið 2008. 

Í valds- og lýðræðisrannsókninni er áherslan á empírískar rannsóknir og gagnaöflun, en einnig er lagt uppúr samstarfi fræðimanna og aðkomu sem flestra fræðigreina félagsvísinda.  Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við stjórnmálafræðideild, er rannsóknarstjóri verkefnisins  og með honum starfar fimm manna verkefnisstjórn.  Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála sér um utanumhald  verkefnisins en um 30 fræðimenn úr ólíkum deildum Félagsvísindasviðs taka þátt í því.

Rannsóknarniðurstöður verkefnisins verða kynntar í viðurkenndum fræðiritum og með ráðstefnuhaldi.